Eins og allir sem þekkja mig vita, þá er ég stoltur handhafi tveggja Google Stadia controllera og fyrir um ári síðan fór ég að spila aðeins af Google Stadia.
Heima hjá mér er ég með 1GBits ljósleiðaratengingu, Chromecastið sem ég spila á, er vírað við Google WiFi router, heima setupið mitt ss. eins gott og það verður fyrir Stadia spilun. Svona ef við lítum framhjá þeirri staðreynd að allt fyrir utan heimilið er ekki alveg optimal. Ég þarf að versla VPN tengingu til að þykjast vera einhversstaðar sem ég er ekki. Ásamt því að tengingar íslands við umheiminn bæta við nokkur þúsund kílómetrum af ljósleiðara við annars náið samband mitt við netþjóna Google. Ofan á þetta koma síðan ógrynnin öll af boxum á leiðinni til bretlands sem bæta enn við seinkun á tengingum mínum við netþjóna Stadia.
Fyrir mig sem skilgreini sjálfann mig ekki sem gamer, heldur þvert á móti. Eitthvað mjög casual. Þá hefur Stadia þrátt fyrir alla þessa ókosti uppfyllt alla þörf mína fyrir leikjaspilun. Fyrir mér er Stadia enn sem komið er, óslípaður demantur, sú óhjákvæmilega stefna sem leikjaspilun mun taka á næstu árum. Á sama hátt og streymiveitur á borð við Spotify drápu geisladiska og mp3 spilara fyrir tónlistarspilun og Netflix rak endanlega naglann í DVD líkkistuna, þá mun einhver streymiþjónusta taka stóra sneið af leikjaspilun í heiminum.
Ég efast ekki um að það verður mun meiri seigja í þeirri þróun á vettvangi leikjaspilunar en var í tilfelli tónlistar afspilunar. En nái Google einhverri fótfestu með Stadia og Amazon með sinni leikjaveitu sem hlaut nafnið Luna og Microsoft með Xbox Game pass. Mun þessi framtíðarsýn verða að veruleika. Og ég geri ráð fyrir að hún muni auka útbreiðslu leikjamenningar í heiminum, auðvelda fólki á borð við mig að grípa í einhvern einfaldann fljótspilaðann leik af og til, í samkeppni við áhorf á sjónvarp eða eitthvað annað álíka misgáfulegt.