Óður til kaffis

Það er langt síðan ég henti hérna inn færslu um kaffi pervertinn sem býr í mér. En eins og þeir sem þekkja mig vita, þá drekk ég ótæpilega mikið af kaffi.

Tvöfaldur Espresso Macchiato er minn drykkur, og er fullkomin blanda af kaffi, með vott af mjólkurfroðu. Svona rétt til að taka mesta broddinn af kaffinu. Á íslandi erum við mjög rík af góðu kaffi, ekki nóg með að Reykjavík Roasters, Te og Kaffi og Kaffitár séu keðjur af hæsta gæðaflokki. Heldur erum við einnig með frábær handverkskaffihús. Kaffi Laugalækur og Pallett í Hafnarfirði svona til að nefna bara tvö.

Heima hef ég alla tíð haldið tryggð við mun einfaldara setup, en trausta Mokka kannan er mitt verkfæri til að hella uppá hinn fullkomna kaffibolla. Ég get alltaf treyst þessari könnu til að koma með góðann bolla fyrir mig til að taka með út í daginn.

Mokka Express

Sú þjóð sem færði okkur þessa dásemdar kaffikönnu hefur gleymt henni á síðustu árum, og farið meira í kaffihúsaleikinn. En í vor þegar ein helsta aðferð yfirvalda til að berjast gegn faraldrinum á ítalíu var að beita útgöngubanni á þegnana virðast ítalir hafa enduruppgötvað þessa frábæru, einföldu leið til að hella uppá frábært kaffi.

Áttstrenda kaffikannan er einföld, endingargóð og auðþekkjanleg. Jafnvel þeir sem ekki eiga slíka könnu, þekkja hana tilsýndar. Sköpuð árið 1933 af ítalska verkfræðingnum Alfonso Bialetti, en náði ekki almennum vinsældum fyrr en á sjötta áratug tuttugustu aldar þegar sonur hans, Alfonso Bialetti yngri ákvað að einfalda framleiðslulínu fjölskyldufyrirtækisins og einbeita sér að mokka könnunni. Moka Express.

Samkeppni frá hylkjakaffi kom Bialetti fyrirtækinu nánast í gjaldþrot, sem rétt tókst að afstýra. Og núna á tímum erfiðleika þegar ítalir hafa ekki getað farið út til að sækja sér kaffi hefur Bialetti séð mikla aukningu eftirspurnar. Svo miklar eru vinsældirnar að helstu kaffiframleiðendur ítalíu eru aftur farnir að bjóða uppá ristun og mölun sem hentar mokka könnum vel.

Það má vel vera að ástæður vinsældanna séu einhverskonar fortíðarþrá, eða mögulega eitthvað sem gefur fólki tækifæri til að hægja á og njóta. Hvað sem það er, þá yfirgaf ég það aldrei. Að bíða eftir að vatnið fari að sjóða og kaffi ilmurinn berst um íbúðina er töfrum líkast.

(Visited 164 times, 1 visits today)

Leave a reply:

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Site Footer

Sliding Sidebar