Í gærkvöldi var eins og svo oft nýverið Pixelbókin mín mér hugleikin, enn var ég með þá fullyrðingu í huga að þetta væri aðeins 90% tölva, og að ég þyrfti alltaf sér vél til að tækla 10%in sem eftir eru. En í framhaldi af hugleiðingum um vef CAD lausnir eins og OnShape, sem ég benti á í fyrradag. Þá rakst ég á vef útgáfu af SketchUp, en það er eins og margir efalaust vita þrívíddar teikniforrit sem gefur hverjum sem er möguleika á að leika sér með módel teikningar í þrívídd, sér að kostnaðarlausu. Nú get ég seint talist einhver snillingur í SketchUp, en get samt ekki betur séð en að þarna sé kominn full útgáfa af þessu annars frábæra forriti.
Afl internetvafrans eykst á hverjum degi. Og með lausnum eins og þessari vef útgáfu af SketchUp komumst við alltaf nær framtíðarsýn manna á borð við Steve Jobs, þar sem hann sá fyrir sér að vefforrit væru framtíðin. Ég segi það eins og er, að núna með þessari uppgötvun minni í gærkvöldi varð Pixelbókin mín að 91% tölvu…