Enn kyrfilegar lekið.

Fyrir nokkrum mánuðum, og aftur fyrir nokkrum vikum, gerði ég grín að því hversu kyrfilega Google, eða einhver annar, náði að leka Pixel 3 og Pixel 3a símunum sem komu frá fyrirtækinu síðastliðið haust og aftur í vor. Þeir lekar áttu það sameiginlegt að Google virtist ekki hafa mikla stjórn á þeim, og við vissum nánast allt um símana þegar þeir voru kynntir. Í tilfelli Pixel 3 var þetta svo pínlegt að það eina sem Rick Osterloh gat gert á kynningunni var að gera grín að þessari staðreynd.

Í sumar, nánar tiltekið um miðjan Júni, brá Google á það ráð að “leka” sjálft (sennilega er birta meira rétt), á sínum eigin Twitteraðgangi myndir af bakhlið símans sem við gerum ráð fyrir að heiti Pixel 4. Það fyrsta sem við tökum eftir er myndavélahnúðurinn sem er ekki ólíkur öðrum hnúðum og á honum birtast auk hefðbundinnar ljósdíóðu, tvær linsur, ein hefðbundin og önnur sem ég gef mér að sé gleiðlinsa. Einnig sjáum við nema sem sennilega er TOF (Time Of Flight) nemi, eða nemi sem mælir vegalengd. Það sem Google hefur gert hingað til í ljósmyndun með einni linsu er alveg hreint ótrúlegt, ég get rétt ímyndað mér hvað þau geta gert með meiri upplýsingum sem ein linsa og þessi aukanemi veita þeim aðgang að. Myndirnar staðfesta líka að það verður ekki fingrafaralesari á bakhlið símans. Eitthvað sem ég kem til með að sakna amk í byrjun.

Framhliðin hefur tekið miklum breytingum, amk ef Pixel 4Xl verður miðaður við Pixel 3XL, en Google kom aftur með mynd af efri hluta símans, sem útlistar alla þá nema sem búið er að koma fyrir efst á skjánum, en þeir nemar gefa til kynna að Google hafi amk náð að jafna framistöðu Face ID frá Apple, ef ekki besta hana. Allavega hefur Google aðeins ákveðið að grínast með þá staðreynd að þeirra útgáfa af face unlock (eða hvað sem tæknin verður kölluð) virki líka á hvolfi ofugt við Face ID á iPhone símunum.

Á þessari mynd má líka sjá soli radar, tækni sem Google kynnti á Google I/O árið 2015, sem á að hjálpa okkur að nota símann án þess að koma við hann, Google á enn eftir að segja mér hvernig líf mitt batnar með þessari tækni en ef ég á að segja alveg eins og er, þá sé ég ekki mikil not fyrir þessa tækni nema ég væri bakari með hendurnar fullar af deigi… eða eitthvað slíkt. Efalaust á Google eftir að segja okkur hvernig þetta nýtist okkur.

Eins og sjá má á þessari mynd, þá er síminn kominn með nokkur hraustlegt “enni” en það kemur á kostnað hins margfræga “notch” eitthvað sem ég persónulega er mjög glaður með, en einhverjir aðrir koma mögulega til með að sakna… Ég er alls ekki ein þeirra, ég hef átt síma með notch núna í 8 mánuði, og ég venst honum aldrei.

Annað sem er áhugavert við þessa strategíu Google er að þó að fyrirtækið sé að deila miklum upplýsingum, þá eru þau engu að síður að stjórna narratívinu með þessari aðferð. Við hin erum bara að velta okkur uppúr því sem kemur frá Google, en ekki því sem ekki er minnst á. Ég gef mér að Google noti þessa aðferð til að tempra aðeins óopinberu lekana og stjórna því um hvað er rætt, en minna farið í að fylla í eyðurnar. Google ætlar síðan að tengja þetta allt saman þegar tækið verður kynnt í haust. Ég fæ mér síðan Pixel 4 XL um leið og ég get.

(Visited 30 times, 1 visits today)

Leave a reply:

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Site Footer

Sliding Sidebar