Ein af stóru breytingum þess að eignast snjallsíma fyrir núna 3 1/2 ári var það hvernig ég hlusta á útvarp. Ég hlusta ekki á útvarp í eiginlegri merkingu, en þó nota ég þjónustu RÚV mun meira en áður. Síminn, með hinu stórgóða Beyond Pod appi, hefur gert mér kleift að hala niður þáttum á kvöldin, raða upp í playlista og eyða síðan þegar ég búinn að hlusta á þáttinn. Eftir því sem ég hef orðið tengdari þessi formi hef ég komist að þeirri niðurstöðu að þarna sé um framtíð útvarps að ræða, að notendur verði ekki bundnir af dagskrá miðlanna svo mikið heldur verði þáttur aðeins gerður aðgengilegur og notandinn sótt hann eða streymt hvort heldur “live” eða eftirá.
Sennilega á það sama við um sjónvarp, þó að það komi til með að verða erfiðara viðureignar. Mestmegnis vegna þess hve veikburða og óþroskuð tæknin er, en líka vegna þess að notendur sjónvarps eru almennt ekki tilbúinir í að verða eigin dagskrárstjórar. Þó er tímaflakkið hjá Símanum, frelsi VOD leiganna og fleira í þeim dúr að breyta þessu hægt og rólega. En það er vissulega þægilegt að geta valið sér efni eftir því í hvernig skapi maður er.