Lattelepjandi 101 lið, sveitadurgur, sægreifa þý, ESB sinni og útlendingasleikjur. Ég á hvergi heima.

Já, ég tek allt þetta til mín allt eftir því hvar ég er staddur, ég er fæddur í litlu sjávarplássi, þar sem ég tel fjörðinn vera fegurstann og fjallasýnina einstaka. Pabbi minn var sjómaður, bróðir minn er sjómaður ég á frændur sem eru sjómenn, ég var það til skamms tíma sjálfur, ef 6 ár nægja til að teljast skammur tími. Fyrsta vinnan mín var að hjálpa Palla í Flatey í síldarsöltun, þá var ég 14 ára, ég á Bjössa á Hrísey að þakka að ég fór fyrsta túrinn minn á sjó 16 ára. Öddi Þorbjörns réði mig 17 ára í fast pláss á Andey þar sem ég var í 1 ár. Skemmtilegasti tíminn var hjá Birgi á Skinney þar sem ég var í eitt og hálft ár. Ég er virkilega stoltur af upprunanum og ég er stoltur af fjölskyldunni minni. Þessvegna tek ég seinnihluta fyrirsagnarinnar til mín.

Ég á að vísu ekki heima í 101 Rvk (og ég drekk ekki latte), en ég var þar, ég nýt þess að drekka gott vandað kaffi. Og þegar fólk nærri uppruna mína tala af takmarkaðri virðingu um lattelepjandi 101 lið tek ég það líka til mín, setningin á við mig. Setningin felur í sér að þeir sem vilji ekki klassíkst uppáhellt bankakaffi heldur eitthvað flóknara megi ekki hafa skoðun á neinu sem gerist fyrir utan nærumhverfi þeirra og það sem meira er, hafi ekki vit á því sem um ræðir.

Til að bæta gráu ofan á svart þá var ég einusinni einn dyggasti stuðningsmaður Framsóknarflokksins, hætti að vísu að kjósa hann 2003 0g 2007, þar sem ég taldi hann hafa villst af leið. En ég taldi mig samt sem áður vera Framsóknarmann. Ég kom aftur “heim” svo að segja 2009 þar sem var kominn formaður sem ég batt miklar vonir við, ásamt þróttmiklu og flottu fólki, ég sé að atkvæðinu 2009 var illa varið. Í stað hefðbundinnar framsóknarmennsku þar sem sáttatónn var sleginn í flestum málum hefur málflutningurinn í garð útlendinga, ESB, kvóta, stjórnarskrár og fleiri mála einkennst af óþoli fyrir öllu sem fellur ekki í línuna og blindri hagsmunagæslu fyrir öfl sem ég fæ ekki skilið. Það má segja að dagar framsóknarflokks í anda Denna séu taldir og því eigi ég ekki heima þar lengur.

Þessi orð rata niður á blað vegna þess að í dag standa yfir miklar deilur, deilur um málefni sem ég vegna þess hvaðan ég kem og hvert ég hef farið má ekki hafa skoðanir á. Kjósi ég að tjá mig, lendi ég í sömu ógöngum og kvótafrumvörpin þar sem allir virðast vera ósáttir. Þó að það sé í mínum kokkabókum ótvíræð vísbending þess að Steingrímur J. (maður sem ég hef aldrei áður samsamað mér við) hafi farið bil beggja, framsóknarleiðina. Þeir sem engu vilja breyta með öflugustu og fjársterkustu lobbýista samtök landsins ásamt einum litlum fjölmiðli í fararbroddi góla og kveina undan. Þegar þokulúðrum var beitt í Reykjavíkurhöfn af 70 skipum minnti það mig á frekju org dóttur minnar þegar hún fær ekki það sem hun vill. Eins gerist það þegar ég tjái mig við vini mína hérna megin Elliðaáa er ég að ganga erinda LÍÚ, vegna þess að ég er utan af landi. Þetta gerir það að verkum að ég á hvergi heima þegar verið er að ræða kvóta mál. Sama gerist síðan í umræðu um ESB, þar sem ég vil endilega fá að kíkja í pakkann og ég vil endilega að LÍÚ og Bændasamtökin gangi til viðræðna með sínar skoðanir og andsöðu að leiðarljósi en samt meðvituð um það að það gæti farið svo að samningur yrði samþykktur, þannig að það er kanski best fyrir alla að fá hann sem bestann. Þegar ég segi þetta þaðan sem ég kem er mér tjáð að ég viji leggja sjávarútveg niður á Íslandi og hleypa Spánverjum og hinum 40 þjóðum ESB að kjötkötlunum mér er brigslað um útúrsnúninga og föðurlandssvik þegar ég árétta að ESB þjóðirnar séu aðeins 28 og að það þurfi að öllum líkindum litlar áhyggjur að hafa af Spánverjum eða öðrum þjóðum. Eins þegar kemur að landbúnaðar málum, það má ekki hrófla við framleiðslustyrkjum og taka búsetustyrki, oft á tíðum lendi ég meira að segja í því að þurfa að útskýra hvernig styrkjakerfið íslenska virkar fyrir þeim sem hæst hafa í andstöðu sinni við breytingar á því. En samt vil ég ekki ganga nógu langt þegar ég ræði þessi mál við fólk vestan Elliðaáa, ég á hvergi heima.

Sennilega liggur vandinn í því að ég er enn í hjarta mínu framsóknarmaður, þó svo að sá flokkur hafi verið hertekinn af undarlegufólki með öðlinginn hann Guðna í fararbroddi. Ég vil nefnilega samvinnu um hag okkar allra, en sú samvinna inniber að það þarf að fá að ræða hluti sem fólk er ekki endilega sammála um og komast að efnislegri niðurstöðu öllum til heilla. Það gerist ekki með því að banna umræðu um hluti sem einhver málsaðlili telur aðra ekki hafa vit á. Viska fjöldans er eitthvað sem þyrfti að treysta á held ég.

Þetta eru allt saman ástæður þess að ég tek fyrirsögnina til mín þó svo að hún vísi í allar áttir.


(Visited 18 times, 1 visits today)

Leave A Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.