Jól og ákveðnar hefðir.

Ég ólst upp með jólahefðir eins og allir aðrir, mjög hefðbundið landsbyggðar barn, fékk aldrei lykil að útidyrahurðinni af því að það var alltaf opið og fleira í þeim dúr. Ég á það enn til að gleyma að læsa hurðinni heima hjá mér, af því að þetta er svo sterkt í mér.

En á jólunum var alltaf möndlugrautur, fyrst var hann sem forréttur, en það uppgötvaðist fljótt að hann er of mettandi til að passa sem forréttur, það voru allir saddir áður en kom að aðalréttinum, því var hann færður yfir á hádegi aðfangadags. Það passaði betur, ágætt að fá eitthvað í magann á meðan síðustu klukkutímarnir tifuðu. Mér telst til að ég hafi fengið möndlugraut í umþað bil 40 skipti, þá eru nokkur jól sem ég varði í Bandaríkjunum og í Þýskalandi þar sem engann möndlugraut var að hafa. En sennilega er grauturinn sú jólahefð sem ég sakna hvað mest að hafa ekki. Það er orðið þannig að við erum alveg hætt að gera sérstakann eftirrétt á aðfangadag, grauturinn frá því í hádeginu er einfaldlega eftirrétturinn líka.

En þó eru ein vonbrigði sem fylgja grautnum á hverju ári, eins og mér þykir hann góður. Það er nefnilega svo að aldrei skal ég fá möndluna sjálfa á diskinn minn, þessi 40 skipti eða þar umbil hefur mér tekist að fá hana ekki. Án þess að ég hafi skoðað það sérstaklega, en ég er sæmilega viss í minni sök að hér sé um einhverskonar met að ræða. En um leið og vonbrigðin þyrmir yfir mig þegar einhver af sessunautum mínum sýnir möndluna sigri hrósandi hugsa ég með sjálfum mér í barnslegri einlægni og bjartsýni “það er alltaf næsta ár”

Til að því sé haldið til haga, þá ligg ég sannarlega undir ásökunum fjölskyldumeðlima að hafa fengið möndluna í eitt skipti og laumað henni í disk dóttur minnar sem var að upplifa þau vonbrigði sem ég þekki allt of vel, þetta eru sögusagnir sem ég get hvort játað né neitað.

Með þessari stuttu jólaminningu óska ég öllum sem þetta lesa og hinum líka, gleðilegra jóla.

(Visited 6 times, 1 visits today)

Leave a reply:

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Site Footer

Sliding Sidebar