Veðurspá komandi daga bendir til mikilla hjólreiða af minni hálfu. Einn af ókostum flutninga Mílu á S30 er að ég er ekki nema ca 500 m frá vinnunni minni, en það þýðir í raun að ég þarf að finna mér nokkra hringiu uppá ca 15-20 km sem hefjast á G22 og enda í S30. Það er jú einn af kostum þess að búa hérna megin Elliðaáa að frambærilegir hjólastígar eru normið frekar en hitt, en til að hjálpa mér við leitina að góðum reiðhjólastígum þá kemur Ride The City að góðum notum. Þó að mér finnist að Reykjavíkur borg hefði mátt gera meira í að halda utan um það verkefni og koma því í hendurnar á einhverjum sem þykir vænt um það.
Það hefur orðið reiðhjólavakning í Reykjavík síðustu 2-3 ár, og ekki bara til útivistar, heldur er fólk farið að uppgötva það að þetta er ljómandi leið til að koma sér á milli staða, sér í lagi í borg sem ekki er stærri en Reykjavík. Þegar litið er til Reykjavíkur vestan Elliðaáa má segja að kjörlendi sé til hjólreiða, tiltölulega flatlend, sæmilega gróin, ekki of heitt eða of kalt. Það vantar bara smá herslumun til að fólk uppgötvi þennan ferðamáta, en átök eins og Hjólað í Vinnuna eru til allra hluta nytsamleg þegar kemur að vitundarvakningu.